Ísótópar
Röntgen Domus hætti að framkvæma Ísótóparannsóknir í byrjun nóvember 2022.

Ferlið
Ferlið er ólíkt eftir því hvaða hluta líkamans á að skanna. Þegar þú hefur fengið tíma í skann er mikilvægt að kynna sér hvernig ferlið er og hvernig er best að undirbúa sig. Í flestum tilfellum tekur rannsóknin 20-90 mínútur.
Geislavirka efnið sem gefið er í ísótóparannsóknum er svokallaður ísótópi sem heitir TC99M . Efnið brotnar sjálfkrafa niður í líkamanum að lokinni rannsókn og hefur ekki áhrif á líkamsstarfsemina.
Beinaskann
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Teknar eru myndir strax eftir inngjöf af því svæði sem um er spurt og alltaf 2-3 klst eftir inngjöf af öllum beinum.
- Myndavélin fer nokkuð nærri þér, en snertir þig ekki
Heilaskann
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Myndað í 20mínútur og þú þarft að liggja alveg kyrr
- Þú liggur á bakinu
- Myndavélin fer nokkuð nærri þér, en snertir þig ekki
Gallvegaskann
Þessi rannsókn tekur oftast að lágmarki 90 mínútur og stundum lengri tíma.
- Fasta síðustu 4 klst fyrir rannsókn
- Taka nauðsynleg lyf með litlum skammti af vatni
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Þú liggur alveg kyrr á bakinu
- Myndað samfellt í a.m.k. 60 mínútur
- Þessi rannsókn tekur u.þ.b. 2 klst
Eftir fyrstu 60 mínútur er framhald rannsóknarinnar ákveðið. Flestir þurfa að drekka 1,25 dl af rjóma til að framkalla samdrátt í gallblöðrunni og síðan er myndað í 25 mínútur til viðbótar. Í ákveðnum tilfellum er gert hlé á rannsókn eftir fyrsta klukkutímann og síðan haldið áfram.
Nýrnaskann
Fleiri en ein tegund ísótóparannsókna eru gerðar af nýrum. Undirbúningur og framkvæmd þeirra er örlítið mismunandi en í flestum tilvikum er ferlið eftirfarandi:
- Fasta síðustu 4 klst fyrir rannsókn
- Drekka 500-700 ml 1/2 klst fyrir rannsókn
- Tæma þvagblöðru rétt fyrir rannsókn.
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót og teknetín gefið
- Rannsóknin tekur 45 mínútur.
Skjaldkirtilsskann
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Þú færð teknetín í æð og 15 mínútum síðar er myndað
- Það er myndað í 4 mínútur í senn, nokkrum sinnum
- Hafir þú ekki farið í ómskoðun af skjaldkirtli er byrjað á því
- Í heild tekur rannsóknin um 40 mínútur
Munnvatnskirtlaskann
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Myndað í 30 mínútur
- Þú liggur á bakinu með púða undir hálsi sem lyftir hökunni
- Eftir um 20 mínútur færð þú sítrónusafa að drekka gegnum rör og mátt ekki hreyfa þig
Meckelsskann
Í þessari rannsókn er verið að leita að Meckels-þarmatotu.
- Fasta í 4 klst fyrir rannsókn
- Ekki má taka aspirín né hægðalyf í 3 daga fyrir rannsókn
- Settur er upp æðaleggur í olnbogabót
- Þú liggur á bakinu með púða undir hægri hlið á meðan á myndatöku stendur
- Myndað er samfellt í 45 mínútur
Geislavirka efnið sem gefið er í ísótóparannsóknum er svokallaður ísótópi sem heitir TC99M . Efnið brotnar sjálfkrafa niður í líkamanum að lokinni rannsókn og hefur ekki áhrif á líkamsstarfsemina.
Athugið að fyrir sumar rannsóknir þarf að fasta.
Þegar þú kemur í rannsókn þarf að fjarlægja allt sem getur skyggt á rannsóknarsvæðið.
Þegar þú færð tíma í rannsókn færðu leiðbeiningar um undirbúning ef einhver er. Í flestum tilfellum tekur rannsóknin 20-90 mínútur.
Geislavirka efnið sem er gefið er ísótópur sem heitir Tc 99m og hefur helmingunartímann 6 klst. Efnið brotnar sjálfkrafa niður (dofnar) í líkamanum að lokinni rannsókn og hefur ekki áhrif á líkamsstarfsemina. Alla jafna ertu laus við efnið úr líkamanum daginn eftir.
Það er mikilvægt að undirbúa börnin með því að útskýra vel að þau verði að vera alveg kyrr á meðan á rannsókn stendur og að tækin séu ekki hættuleg.
Um ísótóparannsóknir fyrir börn gilda öll sömu atriði og fyrir fullorðna. Efnaskammtar og geilsun er alltaf í samræmi við þyngd.
Það er mikilvægt að undirbúa börnin með því að útskýra vel að þau verði að vera alveg kyrr á meðan á rannsókn stendur og að tækin séu ekki hættuleg.
Geislun frá foreldri sem hefur fengið geislavirkt efni vegna myndrannsóknar er lítil, en þó er rétt að gera fólki grein fyrir því að hægt er að minnka geislun á barn með því að barn sé ekki löngum stundum í fangi foreldris, daginn sem foreldrið undirgengst rannsókn.
Leiðbeiningar (úr Radiation Protection 100, European Commission) miða við að geislun á ungabarn fari ekki yfir 1 mSv (sbr. viðmiðunargildi fyrir almenning).
Ekki er nauðsynlegt að gera hlé að brjóstagjöf vegna eftirfarandi rannsókna:
- Beinaskann
- Heilaskann
- Gallvegaskann
Nærvera við móður við gjöf veldur geislaálagi, en ekki geislaefni í mjólkinni. Það er því til bóta að móðir mjólki sig og annar gefi pelann. Hér er um litla geislun að ræða og taka verður vellíðan barns með í reikninginn.
Þegar gefið er hreint pertechnetat fer það eftir magni hve langt hlé þarf að gera:
- 800 MBq 99mTc-pertechnetate; 47 klukkustundir
- 80 MBq 99mTc-pertechnetate; 25 klukkustundir
Þegar gert er hlé á brjóstagjöf þarf að tæma mjólkina úr brjóstunum a.m.k. einu sinni áður en gjöf er hafin á ný.
Ekki eru gerðar ísótóparannsóknir af þunguðum konum nema brýna nauðsyn beri til, oftast má finna aðrar geislaminni rannsóknir ef bráðliggur á að rannsaka viðkomandi.
Eftir að læknir hefur sent beiðni um rannsókn höfum við samband við þig og bókum tíma.
Læknirinn sem sendi beiðnina fær svo niðurstöður rannsóknarinnar mjög fljótlega og kynnir þær fyrir þér. Algengur biðtími er 1-2 dagar.