Segulómun
Segulómun er nákvæm og sársaukalaus rannsóknaraðferð án aukaverkana þar sem útvarpsbylgjur eru notaðar til þess að kortleggja innviði líkamans.

Ferlið
Fyrir segulómun þarf að fjarlægja fatnað sem á eru tölur, rennilás og fleiri málmhlutir, hægt er að fá slopp til að fara í. Taka þarf alla skartgripi og lausa málmhluti. Augnfarða þarf einnig að fjarlægja þar sem hann inniheldur málmagnir. Gott er að hafa þetta í huga og mæta í rannsóknina án förðunar og í þægilegum fötum.
Þú geymir fötin og hlutina þína í læstum skáp á meðan þú ert í rannsókninni. Þegar þú kemur á rannsóknarstofuna leiðbeinir geislafræðingur þér og kemur þér fyrir á rannsóknarbekknum sem er í lokuðu herbergi. Þar til gert loftnet er látið umlykja þann líkamshluta sem á að rannsaka og teppi breitt yfir þig. Athugið að segulómunartækið okkar er eitt það öflugasta á landinu og er 10 cm breiðara en önnur tæki, 70 cm í stað 60 cm. Einnig höfum við annað mjög fjölhæft tæki sem er 80 cm breitt.
Þú færð eyrnatappa eða heyrnartól fyrir útvarp og neyðarbjöllu í hendina og síðan hefst rannsóknin. Hún tekur 15-60 mínútur og á meðan á henni stendur getur þú alltaf náð sambandi við geislafræðinginn sem fylgist með þér í gegnum glugga á rannsóknarherberginu.
Tækið gefur frá sér mikinn hávaða á meðan á rannsókn stendur, síendurtekin bankhljóð sem eru fyllilega eðlileg og ekkert sem þarf að óttast.
Hverjir mega ekki fara í segulómun?
Því miður mega ekki allir fara í segulómun og ef þú ert með eitthvað af eftirtöldu þarf að athuga sérstaklega hvort óhætt sé að segulóma:
- hjartagangráð
- insúlín- eða verkjalyfjadælu
- ígrædd heyrnartæki
- kuðungaígræðslu í eyra eða gervi ístað
- ígræddar taugaörvunarleiðslur
- hjartalokur af eldri gerð
- aðskotahlut úr málmi nærri augum
Hjartagangráðar og segulómun
Sumir gangráðar sem settir eru inn í dag mega fara í segulómskoðun/MR sem er þá gert í samráði við þinn lækni.
Aðeins fáar segulómrannsóknir krefjast sérstaks undirbúnings. Áður en rannsókn hefst þarf að fara yfir nokkrar spurningar um öryggisatriði og mikilvægt að þú mætir tímanlega.
Segulómunartækið getur virst ógnvekjandi fyrir börn og því er mikilvægt að fræða þau um það hvernig rannsóknin fer fram og leyfa þeim að spyrja spurninga áður en þið komið með barnið í rannsókn. Það getur verið gott að sýna þeim myndir af segulómtæki og jafnvel myndbönd af netinu og leyta eftir “mri for kids”. Ef barnið er óvant að nota heyrnarhlífar er gott að þjálfa það í því svo það komi því ekki á óvart þegar rannsókn hefst.
Foreldrar geta verið með börnum í rannsóknarherberginu, en þá þurfa foreldrar að svara öryggisspurningum og undirbúa sig á sama hátt og barnið.
Athugið að mikilvægt er að mæta með tilvísun/beiðni í rannsókn frá lækni og framvísa henni þegar mætt er, ef hún hefur ekki verið send af lækni.
Ef læknir er búinn að senda beiðni fyrir rannsókn sem þarf undirbúning hringjum við í þig og finnum tíma við fyrsta hentugleika.
Þegar rannsókn er lokið fær læknirinn sem vísaði þér til okkar niðurstöðurnar og hefur samband við þig og kynnir þær fyrir þér. Algengur biðtími er 1-2 dagar.