Tölvusneiðmynd

Tölvusneiðmyndir eru teknar til þess að rannsaka líffæri, æðar og bein. Oft eru skuggaefni gefin með æðalegg á meðan rannsóknin fer fram.

CT (Computed tomography) scanner in hospital laboratory.

Ferlið

Í öllum tilfellum þarftu að leggjast á rannsóknarbekk sem síðan færist til á meðan rannsókn er framkvæmd. Til þess að myndatakan heppnist þarftu að liggja alveg kyrr á meðan rannsóknin fer fram. Tækið gefur frá sér svolítinn hvin á meðan rannsókn fer fram. 

Í flestum tilfellum færðu skuggaefni í æð á meðan á rannsókn fer fram. Eftir það þarf að gera hlé á inntöku sykursýkislyfja í 2 daga og drekka meira vatn en venjulega næstu daga. 

Tími rannsóknar er mismunandi eftir því hvað er verið að rannsaka:

 • Höfuð: 10 mínútur, enginn undirbúningur, stundum gefið skuggaefni.
 • Háls: 10 mínútur, enginn undirbúningur, oft gefið skuggaefni.
 • Brjósthol: 10 mínútur, enginn undirbúningur, stundum gefið skuggaefni.
 • Kransæðar: 90 mínútur, ekkert koffín eða tóbak fyrir rannsókn. Alltaf gefið skuggaefni.
 • Kviðarhol: 20 mínútur, oftast gefið skuggaefni.
 • Ristill: 30 mínútur. Undirbúningur fyrir rannsókn á ristli hefst 2 sólahringum fyrr. Sjá leiðbeiningar með því að smella hér
 • Hryggur: 10 mínútur, enginn undirbúningur.
 • Útlimir: 10 mínútur, enginn undirbúningur.

Undirbúningur

Almennur undirbúningur fyrir tölvusneiðmynd felst í að  fjarlæga fatnað og skart af svæðinu sem á að rannsaka.

Þrjár rannsóknir krefjast sérstaks undirbúnings: 

 • Kransæðar: Ekkert koffín eða tóbak að morgni rannsóknardags. Stinningarlyf má ekki hafa notað 2 sólarhringum fyrir rannsókn vegna hættu á blóðþrýstingsfalli. 
 • Mjógirni: Mæta þarf klst fyrir rannsókn og drekka sorbítólblandað vatn. 
 • Ristill: Undirbúningur tekur 2 sólarhringa. Sjá leiðbeiningar hér.

Börn í rannsókn

Þar sem tölvusneiðmyndatækið getur virst ógnandi er mikilvægt að segja börnum frá framkvæmd rannsóknar áður en þið komið.

Foreldrar mega vera hjá börnum sínum á meðan rannsókn fer fram, nema þungaðar konur. Það er mikilvægt að brýna fyrir þeim að vera kyrr á meðan tækið vinnur. 

Það er mjög mikilvægt að foreldrar komi með tilvísun frá heimilislækni, í þessa rannsókn en ekki eingöngu frá sérfræðilækni.

Flestar tölvusneiðmyndarannsóknir sem ekki þarfnast sérstaks undirbúnings er hægt að framkvæma samdægurs. Ef beiðni hefur verið send er hægt að koma til okkar án þess að panta tíma í Domus Medica, Læknasetrið eða Heilsugæsluna Höfða kl. 8.00-15.30. 

Ef læknir er búinn að senda beiðni fyrir rannsókn sem þarf undirbúning hringjum við í þig um leið og læknir hefur sent inn beiðni og finnum tíma við fyrsta hentugleika.

Þegar rannsókn er lokið fær læknirinn sem vísaði þér til okkar niðurstöðurnar og hefur samband við þig og kynnir þér niðurstöðurnar. Algengur biðtími er 1-2 dagar.